Sunday, October 5, 2008

Þokkalegt partý í gær!!


Hún Guðrún Elín litla frænka mín á 2ára afmæli í dag!! Til hamingju með daginn ljúfan.. Er hægt að vera meiri dúlla!!

Jæja er ekki vert að blogga eftir slíka helgi. Ég fór sem sagt í partý í gær klukkan 5 og þar voru saman komnar um 15 eða 16 kellur. Krissa var að halda partýið. Við byrjuðum á því að fara í ratleik sem Billi og Hafsteinn skipulögðu og það er ekki annað sagt en það hafi hlakkað í kvikindisskapnum í þeim þegar þeir voru að setja niður stöðvarnar. Við þeystum um allan bæ og út fyrir í brjáluðu roki. Á fyrstu stöð þá áttum við að skella í okkur staupi af Baccardi raspberry og það er nú bara helvíti gott.. þó það hafi verið drukkið dry. Ég hélt á vissum tímapunkti að ég væri að drepast. Rokið var svo mikið að ég náði varla andanum. En minn hópur var ekkert að gefa sig neitt og við rústuðum hinum. Lungun voru að springa þegar við komum heim til Krissu aftur. Shit! En svo var bara farið að hella í sig og spjalla og borða humarpasta, sem var geggjað gott. Og svo var bara partýstemmarinn komin á. Dansað og sungið við ABBA og svona eins og tíðkast í kvennapartýum. Um hálf átta voru sumar orðnar vel hressar en ég reyndi að hemja mig í drykkjunni og það tókst ágætlega. Var þó komin í gríðarlegt stuð um miðnætti þegar þrammað var á barin. Þar dansaði ég af mér rassgatið og var á dansgólfinu allt kvöldið, enda fékk ég að stjórna tónlistinni!! Var svo á leiðinni í eftirpartý eftir að barinn lokaði en guggnaði á því á miðri leið og dreif mig heim að sofa. Þurfti nú að fara í tölvuna aðeins áður en ég fór að sofa.. það er siður hjá mér! Í dag hef ég að mestu legið í bælinu með augun lokuð og gert ekki neitt... ekki einu sinni sofið. Meikaði samt að fara og ná í bílinn minn og dótið að öðru leiti er ég bara á náttfötunum að hafa það rólegt. Ég er ein heima og er í algjörri afslöppun. Langar svo suður um næstu helgi til að sækja Írisi vantar bara svo far! kemst suður en ekki til baka! ef einhver verður á ferðinni frá Egilsstöðum á sunnudagskvöldið endilega látið mig vita ef ég get fengið að sitja í .... eða bara ef einhver er að koma að sunnan og vantar félagsskap!!!! Jæja farin að horfa á imbann!! chao

Wednesday, September 24, 2008

Draumahúsið enn og aftur!



Enn og aftur kem ég með þessa mynd! Mér finnst þetta bara svo flott hús að það hálfa væri nú nóg. Þetta er sem sagt tekið í Mjóafirðinum í einum af sumarrúntunum mínum,´múttu og Írisar.
Af mér er alveg fínt að frétta fyrir utan það að ég er með harðsperrur dauðans og ekki bara í einum vöðva nei í öllum helv.. skrokknum eftir blakæfingu á Fásk í gær. Ég,´Sóley og Guðný skelltum okkur á æfingu með fáskgellunum og þær hafa líka svona fínar upphitunaræfingar að dagurinn hjá mér í dag hefur verið hörmung. Hef mig ekkert getað beygt og það er alveg merkilegt að þegar maður er með harðsperrur í öllum fótleggjunum þá er maður aldrei eins duglegur að missa eitthvað í gólfið og vera eins og Gosi spýtustrákur (áður en hann breyttist í dreng) eða bara gamalmenni sem kveinkar sér líka svona við að beygja sig. En djö.. hafði ég gott af þessu. Væri svo til í að gera þetta svona tvisvar í viku, en það stendur samt ekki til. Við skreppum kannski einhverntímann aftur. Spurning um að fara að fá fólk hér á staðnum til að koma á æfingar. Framundan hjá mér er ekki mikið. Fer reyndar í skírn um helgina, á fríhelgi og ætla að reyna að gera aðeins meira þá helgi en ég gerði síðustu helgi; eyddi öllum sunnudeginum í að púsla. Við mútta erum með 3000 kubba dæmi á stofuborðinu og þegar maður hangir yfir þessu lengi þá fær maður alveg vöðvabólgu dauðans. En mikið er þetta nú afslappandi og skemmtilegt. Þessar útvöldu eru svona í og með að reyna að plana eina sumarbústaðarferð fyrir jólin. Það er nauðsynlegt að komast aðeins í burtu og sleppa af sér beislinu. Þarf að skreppa suður en hef ekki fundið mér tíma til þess ennþá. Brjálað að gera hjá minni! Jæja ég ætla að skríða í koju, kveðja Drabban

Saturday, September 20, 2008

Er barnið farið að drekka!


Nei nei hún er bara að halda á tómri dós!!

Það lýtur út fyrir að ég sé svona helgarbloggari. Það gerist ekkert nema um helgar. Það er svona þegar það er svo mikið að gera hjá mér. Ég er bæði á vöktum í vinnunni og svo er ég að læra á allt systemið og þar að leiðandi mikið niðri í búð utan vinnu. Það er marg sem fylgir þessu nýja starfi mínu en allt mjög áhugavert. Það er búið að vera svoldill gestagangur hér síðan um síðustu helgi. Alfa var hjá okkur frá föstudegi til þriðjudags.Þurfti reyndar að flýta fluginu sínu á þriðjudaginn vegna veðurs. Það var ömurlegt veður hér í síðustu viku. Það er búið að rigna eins og hellt úr fötu! Ég hélt kannski að það mundi duga til að bílinn minn yrði hreinn og fínn að utan en það dugði víst ekki til. Ég notaði því tækifærið í gær meðan það rigndi ekki og skellti mér í að þrífa hann utan sem innan. Ég hefði svo sannarlega getað verið á hlýrabolnum þar sem gula fíflið skein sínu skærasta en ég kunni nú ekki við það nágrannana vegna. Þrjóskaðist því við í flíspeysunni og hætti ekki fyrr en kagginn glansaði (eða svoleiðis). Guðrún Anna frænka átti afmæli í gær og ég kíkti til hennar eftir vinnu í gærkvöldi. Þar voru nokkrar skvísur samankomnar að úða í sig kræsingum. Ég stoppaði til að verða hálf eitt en þá var ég farin að geyspa svo mikið að ég kunni ekki við að láta þær horfa mikið lengur ofan í kokið á mér. Í dag er ég í fríi eða svo til. Fór með dósir úr búðinni og svo reikna ég með að taka bakvakt í kvöld ef þess þarf. Frí hjá mér er því eins og er ekki frí en þó það. Það var svo ömurlegt veður í morgun þegar ég vaknaði að ég sá ekki fram á að gera mikið af viti í dag, ekki utanhúss allavega. Ég var komin með þá grillu í hausinn að fara bara að taka til í geymslunni ( nú tístir sennilega í einhverjum) en ákvað að hlýfa öðrum á heimilinu við því. Mér finnst það snilldar not á tíma að taka til í geymslunni en ég er nú samt tiltölulega nýbúin að því. Ég býst því við að reyna að vinna eitthvað í tölvunni í dag í staðinn. Það er svo ótrúlega margt sem ég ætla að koma á tölvutækt form sem tilheyrir búðinni sem ekki hefur verið það hingað til. Mamma er svo ótölvuvædd að það er nánast ekkert gert í tölvu utan bókhalds. Það hefur ekki einu sinni verið nettenging í versluninni hingað til en það stendur til bóta. Líka nauðsynlegt upp á framtíðina svo við Helga getum gengið að bókhaldinu vísu þar en ekki hér í kjallaranum. Þetta kemur allt með tímanum. Það er hellingur sem þarf að gera og þarfnast skipulags og tíma. Þetta fer hægt af stað en við reynum að gera eitthvað smá annað slagið. Ég á nú kannski eftir að fara úteftir í dag og mála smá , alltaf þörf á því! Kannski í kvöld þá ætlar Helga að fá gistingu í gestaherberginu þar sem hennar hús er fullt af gestum sem eru komnir til að taka skúrk í húsinu hennar. Ef hún gistir þá getur vel verið að ég bjóði henni upp á hvítvín. Það hafa komið spurningar um það úti í bæ hvort við séum lessur! hehe gamall kall sem er að vinna hér sem var víst að spurja að því úti í bæ. Okkur finnst þetta nú bara fyndið. Við erum jú mjög mikið saman en bara sem vinkonur, svo það sé nú á hreinu!! Ég man ekki hvort ég var búin að segja frá því að við (ég,Helga, Íris og Ágústa) fórum á kvennaráðstefnu á Höfn síðasta þriðjudag. Þetta var fyrir konur í atvinnureksti og þetta var mjög skemmtilegt og nytsamlegt. Eftir þetta ákváðum við að vera svoldið grand á því og fórum á Humarhöfnina og fengum okkur að borða. Ég fékk mér humarsúpu í forrétt og svo humarpizzu í aðalrétt og hún var rosalega góð! ég mæli með því að allir drífi sig á Höfn og fari á Humarhöfnina svona áður en hún lokar, það lokar 1 október og er lokað fram á vor. Alls ekki dýr staður og hrikalega kósí bara. Við fórum alsælar og saddar heim eftir daginn. Jæja ætli ég fari ekki að bardúsa eitthvað sniðugt. Kveðja og góða helgi Drabban

p.s varð að láta þetta fylgja

Sunday, September 14, 2008

Helgarfrí!


Já þið segið! ekki er nú hægt að gefa mér háa einkun fyrir nýja innkomu á bloggið!
En þessi meðfylgjandi mynd sem ég skellti með mætti kalla Kokkur án klæða! fannst bara svo tilvalið að setja þessa mynd inn þar sem helgin hjá mér er búin að snúast um að borða eða svoleiðis. Alfa systir kom til okkar á föstudaginn. Við mæðgur sóttum hana á Egilsstaði á föstudaginn og ég notaði tækifærið og skellti mér í klippingu. Fór að vinna á föstudaginn klukkan 4, var búin um 11 og fór þá beint heim í smá stund en kíkti svo í Löngubúðina þar sem var boðið upp á osta og hvítvín
ég fékk mér eitt glas af hvítvíni og spjallaði við skvísurnar og fór svo heim. Fór í sund á laugardaginn, chillaði með múttu, Ölfu og Írisi þar sem ég var i fríi. Kíktum á afa sem er komin heim (eða á Helgarfell) eftir langa fjarveru vegna veikinda. Spiluðum Scrabble og höfðum það bara rosalega gott á laugardeginum. Í dag hefur svo sem ekki margt verið brasað nema bara haft það enn betra. Við erum búnar að borða rosa góðann mat og heimabakað brauð og svo að sjálfsögðu nammi. Fengum okkur smá hvítvín/rauðvín með matnum á laugardaginn. Alfa verður hér fram á þriðjudag, er að klára sumarfrí. Á þriðjudaginn er ég að fara á Höfn ásamt nokkurm gellum héðan og við erum að fara á eitthvað kvennaþing fyrir konur í atvinnurekstri sem mig hlakkar mikið til að fara á. Alveg nýtt fyrir mér að fara á eitthvað svona. Vonandi að þetta eigi eftir að koma að góðum notum. Annars er ekki mikið plan framundan hjá mér.. annað en vinna borða sofa. Sem er fínt. Jú jú ég hugsa líka um krílið mitt. Hún hefur nú yfirleitt alla athyglina sú dama, og oft meira en hún getur. Það getur verið erfitt fyrir okkur múttu stundum að reyna að tala saman án þess að hún sé að reyna að troða sér inn í samræðurnar. Það er víst svona þegar maður er eini krakkinn á heimilinu. Hún sagði nú við mig frekar skondið þegar við vorum á leiðinni upp á Egilsstaði á föstudaginn. Við vorum að keyra Skriðdalinn og íris segist vera svo þyrst og svöng ég rétti henni vatnsflösku og segi ,,fáðu þér vatn núna og svo færðu að borða þegar við komum". Hún svarar mjög fljótt,, nei mig lagar ekki í vatn. Mig langar svo í mjólk... úr brjóstunum á þér mamma!!". Ég sagði nú að það væri ekki hægt. Þá sagði hún jú jú við förum bara á sjoppuna og inn á klósett og læsum. svo sest þú á klósettið með mig í fanginu og gefur mér að drekka!. Ég útskýrði það því fyrir henni að ástæðan væri ekki sú að það væri ekki hægt í bílnum heldur væri engin mjólk í brjóstunum á mér. Mér fannst svoldið skondið að hún segði þetta þar sem hún hætti sjálf á brjósti þegar hún var 5 mánaða!. En svona hluti lætur hún óspart út úr sér. Gaman að þessu engu að síður! En jæja þetta var nú bara svona stutt ágrip af því sem ég hef verið að gera utan vinnu sem hefur verið flest kvöld síðustu tvær vikur! verð næstu tvær á fyrrpartsvöktum svo ég reyni.. ég endurtek reyni að vera dugleg að þvæla eitthvað hér inn. Lofa engu. Kveðja Drabban

Monday, September 8, 2008

Áskorun frá Írisi Dögg


Draumahúsið mitt fundið í Mjóafirðinum


Minnsta bensínstöð á landinu sennilega bara!


Bara cool skilti í Eskifirðinum

Jæja ég fékk víst áskorun frá Írisi Dögg um að fara að blogga aftur. Andinn hefur svo sem ekki komið yfir mig aftur en ég get nú ekki verið minni manneskja en það að taka áskoruninni. Ég á nú samt aldrei eftir að komast með tærnar þar sem hún hefur hælana í blogginu. Ótrúlegt miðað við að hún segist hanga heima hjá sér alla daga en samt hefur hún endalaust hugmyndir af bloggi! Ég ætti nú samt að geta núna, þar sem ég er komin í nýju vinnuna, þar sem ég hitti fólk daglega að geta sankað að mér kannski einhverjum kræsandi kjaftasögum! Ég byrjaði sem sagt í nýju vinnunni sem framkvæmdastjóri (ásamt Helgu vinkonu) í versluninni Við Voginn. Tókum við af mömmu sem er að hætta eftir eitthvað um 20 ár. Nú ætlar hún að fara að chilla bara, er nú þegar á leiðinni til Finnlands í kvennaferð og svo á tónleika með Queen í London. Ekki annað sagt en hún sé að fara að hafa það gott í þessu fríi sínu sem enginn,ekki einu sinni hún veit hvað á að vara lengi. Mottóið hennar er að njóta bara lífsins núna og hugsa bara um sjálfa sig. Enda kominn tími til. Ég dauðöfunda hana á þessum tónleikum sem hún er að fara á. Ég hlýt einn daginn að hafa efni á því að gera mér glaðan dag eða daga og skreppa eitthvað erlendis á tónleika. Veit um nokkra sem eru að fara á Madonnu´tónleika.. efast ekki um að það verði upplifun. Kannski ég geri bara eins og mamma. Vinni eins og brjálæðingur í 20 ár og fara svo bara að chilla og vinna ekki neitt. Mamma byrjaði með þessa verslun 34 ára og nú er ég 31 árs og hlakka til þegar ég verð 50 og eitthvað eins og mamma og geta farið að njóta lífsins aftur. Ég er rosa ánægð að vera komin í verslunina að vinna. Svoldið mikil viðbrigði að vera á röltinu að gera eitthvað allann daginn heldur en að sitja á stól eða í sófa mest allann daginn eins og ég gerði í leikskólanum, enda er ég svo þreytt í fótunum að það 1/2 væri nóg. En það er vont en það venst og ég er minnst að væla yfir því þar sem ég hef svo gaman að því að vinna við það sem ég get verið að hreyfa mig svoldið, svo við tölum nú ekki um hvað ég hef gott af því!! Framunda hjá okkur Helgu er mikil vinna við að læra á allt klabbið, bókhald, pantanir, launaútreikninga og allt það sem fylgir þessu. Ég er svo sem búin að vera að vinna þarna annað slagið í svona 15 ár en aldrei komið nálægt neinu sem heitir ábyrgð eða svoleiðis. Gaman að takast á við þetta!!
Það er svo langt síðan ég bloggaði síðast, sennilega ekki síðan ég og Íris Antonía fórum í ferðalag,sem var by the way ótrúlega skemmtilegt. Ég elska að keyra um landið og skoða fallegu náttúruna sem við megum vera stolt af hér á landinu!! Ég á margt eftir að skoða enn hef allann tíma í heimi til að klára það. Íris er búin að vera voða mikið hjá pabba sínum og c.o undanfarið og ég hef reynt að nýta þann tíma fyrir mig. Ekki samt að ég hafi drullast til að nota hlaupabrettið sem ég á alltaf í bílskúrnum. En trúið mér ég hugsa um það á hverjum degi! Það dugir samt ekki til til að ná af sér eins og nokkrum aukakílóum! En hver nennir að vera að spá í línurnar. Ég hef línur þó svo að þær séu nokkuð ójafnar:). Jæja mætti ekki segja sé að þetta sé nokkuð nóg röfl svona í byrjun á nýju bloggeldi. Læt hér með "pennann" frá mér og ætla að henda mér í "koju" . Over and Out Drabban

Thursday, August 14, 2008

 
Posted by Picasa

Tuesday, July 8, 2008

Sumarfrí! on the way!


Nú eru ekki nema 3 dagar þar til hið langþráða sumarfrí hjá mér byrjar!!! ég get varla beðið. Batteríið alveg búið. Ég er búin að leggja mig held ég á hverjum degi núna í að verða viku og ég er alveg að sofa 1-3 tíma og fer svo bara á mjög skikkanlegum tíma að sofa á kvöldin. Planið er að fara eitthvað með nýja tjaldið sem ég var að kaupa í dag (eða mamma keypti fyrir mig á Egilsstöðum) planið að fara allavega í Dimmuborgir, fara á Snæfellsnesið og svo langar mig svo að kíkja í heimsókn til Berglindar, Birkis og Emelíu í sveitina en ég á eftir að boða komu mína þangað ef þau mega vera að þvi að taka á móti okku mæðgum og kannski Ölfu systur líka. Ég ætla að reyna að plata Helgu vinkonu með mér eitthvað í smá útilegu . Ótrúlegt að hugsa til þess að vera að fara í mánaðarfrí og hanga ekki með henni alla daga eins og við gerum. við vinnum jú saman, við höngum saman slatta utan vinnu og erum svo að fara að taka við nýja jobbinu saman! ég verð nú að hafa hana með mér í smá frí! Hehe við hlægjum stundum af því að þegar við hittum börn af deildinni okkar utan vinnutíma þá spyr það alltaf um hina. Eins og við séum bara alltaf saman! Íris mín spurði mig líka um daginn agalega alvarleg hvort hún Helga mætti ekki bara líka vera mamma sín. hún ætti hvort sem er engin börn. Naumast hugulsemin í henni. Veit ekki hvort Helga mundi samt treysta sér í svona gemling eins og ÍRisi því hún er svoooooo uppfull af orku og óþekkt eins og er. Hún þarf svo að komast í sumarfrí!! Um helgina verður ættarmót hér og við eigum vona á held ég 6 gestum í gistingu. það verður því munur á heimilislífinu hér. Það verður trúbbi í löngubúðinni á föstudagskvöldið og þá ætla ég að kíkja út og vonandi með eitthvað af þessum snillingum sem eru að koma um helgina. Nefnum engin nöfn en þetta lið kann að skemmta sér. Spurning um að fá sér einn Mojito svona til að nota myntuplöntuna sem ég fékk í afmælisgjöf frá Auði. Akkúrat svona lauf sem maður notar í Mojito! Það verður eflaust glimrandi stuð alla helgina þannig að kannski ég hafi frá einhverju að segja í næstu viku ef svo vill til að ég taki fram tölvuna til að blogga! ég ætla að koma mér út fyrir rörahliðið sem fyst í næstu viku svo ég lofa engu! ekki þekkt fyrir að lofa neinum bloggi, enda er ég mest hrædd um að flestir séu hættir að líta hér inn þar sem ég er svo léleg í þessu! En nú ætla ég að koma mér í háttinn. Má ekki missa úr beautysleepinu mínu. Segi bara snemmkomið góða helgi og sumarfrí kveðja Drabban

Sunday, June 22, 2008

Trallalalalala!


Jæja blogga hvað? ekki alveg að nenna þessu þessa dagana. Reyni að gera eitthvað meira af viti eins og að bera í pallinn, slá, skipuleggja nýju vinnuna, hanga úti með vinkonum, eða bara allta annað en hanga í tölvunni eins og ég hef verið allt of duglega við í vetur. Það sem hefur gerst í mínu lífi undanfarið er ekki mikið fyrir utan það að ég er ekki lengur 30 ára, heldur varð ég 31 árs á fimmtudaginn. Merkilegt hvað ég er hætt að fá kvíðaköst fyrir afmælin mín eftir að ég hætti að vera 20 og eitthvað. Það að verða 30 var svakalegt en ég var svo chilluð fyrir þetta afmæli. Henti í eina köku og svona og bauð nánast engum í kaffi. Það komu þó einhverjir og það var ljómandi gaman. Mér fannst algjör snilld að ég fékk frá Ævari frænda mínum skopparakringlu sem var bara fyndið því fyrir svona 29 árum þá fékk hann svona skopparakringlu í jólagjöf og þegar ég kom í heimsókn (um 2ára) þá reif ég hana af honum og lék mér með hana eins og ég ætti hana. Ég var svo mikið stærri og sterkari (þá allavega, veit ekki með núna) hann var svo fúll og í öll þessi ár þá hefur hann alltaf verið að minnast á þetta og verið (innst inni) enn fúll við mig yfir að hafa rifið af honum. Þannig að núna á ég mína eigin skopparakringlu og ég er sko búin að bjóða Ævari (Omsa) frænda að koma og fá að prófa mína án þess að rífa hana af honum. Þetta er svona meira persónulegur húmor en mér finnst þetta bara fyndið. Framundan hjá mér er svo bara að telja niður í sumarfrí, reyna að gera eitthvað skemmtilegt í því. Telja niður dagana í nýju vinnuna mína. Reyna að njóta lífsins og vera hress og kát, sem gegnur ótrúlega vel eitthvað þessa dagana. Ég er svo ánægð með myndavélina mína að ég er alltaf að plana að labba hingað og þangað til að fara að taka myndir. Erfiðara að drullast af stað og fara en ég er á leiðinni! Búin að sitja óvenjulega mikið á svölunum undanfarið, sleikt sólina sem samt hefur ekki skilið eftir sig nein ummerki um það í andlitinu á mér frekar en öðrum hlutum líkamans. Ég bara verð ekki brún! Jæja það er um að gera að koma sér í svefn. Þreytt, enda búin að drekka smá hvítvín í kvöld með Helgu og Írisi og spjalla, ótrúlega næs að fara og hitta þær. Klukkan að verða 2 um nótt og ég orðin svaka þreytt. Fór í sund í morgun, fór í skógræktina á skógardaginn og er svo þreytt. Góða nótt alle sammen!! kveðja Drabban

Monday, June 2, 2008

Búin að ráða mig í aðra vinnu!!


Ætli það sé ekki kominn tími á smá blogg hér! Ég hef nú lítið gerts síðan ég kom að utan fyrir utan það að segja upp vinnunni á leikskólanum, búin að vera á leiðinni til þess síðan desember 2005 en þar sem mér hefur ekki staðið nein betri vinna til boða þá hef ég strögglað þarna í tæp 3 ár. Ástæðan fyrir því að ég er búin að segja upp er sú að þar sem mamma er búin að segja upp sem framkvæmdastjóri í sinni eigin verslun, og starfið hennar var auglýst en enginn sótti um nema ég og Helga vinkona í sameiningu þá vorum við ráðnar og erum sem sagt að taka við 1.september. Við erum reyndar byrjaðar að skipta okkur af,en þó með góðu samþykki hinna og erum strax búnar að knýja fram smá breytingar og erum með nokkrar þrælsniðugar hugmyndir sem við eigum eftir að koma á síðar og verða ekki gefnar upp strax. Mamma var svo fegin þegar við sóttum um bæði vegna þess að hún vill losna út og var ekki að sjá það gerast meðan enginn sótti um en svo þegar við fengum þessa snilldar hugmynd og bárum hana upp við múttu þá leist henni svo vel á. Maður er aldeilis búin að fá hamingjuóskir og meira að segja knús og kossa frá fólki sem líst svona dæmalaust vel á að við Helga tökum við þessu. Nú getum við varla beðið eftir að taka við þessu. VIð erum samt alveg sammála um það að við eigum svo eftir að sakna krakkanna okkar á leikskólanum. Það er alveg yndislegt að vinna með börnum en það er svo illa borgað að það hálfa væri nóg. Framundan hjá okkur er að læra ýmislegt nýtt eins og að reikna út laun og allskins launavinna sem maður hefur aldrei komið nálægt. Ég hef nú sem betur fer talsverða reynslu á ýmsu þarna í versluninni þannig að ég er ekki alveg að æða út í eitthvað nýtt. Það er bara bókhaldið sem ég kann ekki. Það er búið að vera rosalega gott veður hér fyrir austan undanfarið en einhverra hluta vegna þá fæ ég alveg afskaplega lítinn lit! Hundsvekkt yfir því en það á nú kannski eitthvað eftir að ráðast úr því þar sem sumarið er jú rétt að byrja. Það er nú samt sorglegt hvað það er oft þoka hér á sumrin en hún er ekki enn farin að láta sjá sig. Plönin mín um sumarfríið mitt dóu þegar mér var tilkinnt að ég fengi ekki sumarbústaðinn sem ég sótti um í Grundafirðinum. Það er ættarmót hér 11-13 júlí sem ég verð auðvitað á en annað er óplanað. Ég veit það bara að ég ætla að gera eitthvað skemmtilegt en ódýrt þar sem ég er skít blönk eftir ferðina til New York og svo var ég líka að kaupa mér felgur, geislaspilara svona í bílinn og stefni að þvi að fara á stutt ljósmyndanámskeið eftir nokkra daga til að læra á nýju vélina mína. þarf reyndar annaðhvort að fara á Höfn eða Egilsstaði til þess en þetta er spurningin um að hóa saman liði í einn bíl og deila bensínkostnaði. Jæja best að fara að sofa. Þarf víst að ná upp svefni eftir sjómannadagshelgina, maður fór víst á djammið þar sem loksins var eitthvað um að vera hér. Birna Sif dóttir Snæbjörns (og ein af keppendunum úr Bandinu hans Bubba) var að spila ásamt hljómsveit. Þrusu stemmari og ég dansaði og dansaði! Fór í eftirpartý og alles eftir að hafa horft á létt slagsmál, eitthvað sem gerist aldrei hér!!!! Alvöru sjómannadagsstemmari og fínt! Nætí næt!!! kveðja Drabban

Monday, May 19, 2008

New York!

Einhverra hluta vegna komu myndirnar allar í öfugri röð!
Fengið sér næringu á flugvellinum í New York eftir snilldar ferð

Hildur þreytta eftir nuddið

Frelsisstyttan fræga

Gellurnar í verslunarleiðangri

Íris og Æsa

Íris, Matta og Ásdís á Sushi staðnum

Beðið eftir að fara í útsýnissiglingu

Manhattan

Flogið um loftin blá

Empire state

Dagný, Sigurbjörg og Ég á sushistaðnum


Þá er maður búin að skreppa í stelpuferð til New York með 11 gellum úr menntó. það var svoooooo gaman. Fyndið nokk að aðstoðarflugmaður í ferðinni var jafnaldri okkar úr menntó. Við létum hann svo sannarlega vita af okkur og honum fannst þetta bara fyndin tilviljun. Við gistum á rosa fínu hóteli, borðuðum rosaflott 3 kvöldin og ferðuðumst með limmu fram og til baka eitt kvöldið. Það er ekki hægt að segja að það hafi mikið verið djammað enda ekki planað þannig séð en sumar kíktu á staði en ÉG fór með þeim fyrstu heim öll kvöldin. Það er vitað mál að hjá mér fer áfengi og að vakna snemma og gera eitthvað ekki saman. Ég tók því verslanirnar og endalausa göngu fram yfir djammið. Verslaði smá en engin ósköp. Fórum í útsýnissiglingu og sáum allt það helsta eins og Frelsisstyttuna og svona. Ætluðum svo að skoða eftirmerki tvíburaturnana en það var búið að loka það allt af þar sem þar eru miklar framkvæmdir í gangi þar sem verið er að fara að byggja aðra byggingu þar. Fórum á röltið í Soho þar sem nóg er af búðum. Ég var svo dauð í fótunum eftir allt labbið að þegar við komum á flugvöllinn í New York þá var þar nuddstofa og ég og ein skelltum okkur í nudd. Ég fékk að sitja í nuddstól í svona 20 mínútur og keypti mér svo fótanudd og það var bara geðveikt!!! Hefði svo getað lagt mig í 2 tíma meðan gaurinn nuddaði mig! Mæli með þessu ef einhver er á ferðinni þangað. Ég ætlaði að kaupa mér geislaspilara í bílinn úti, og þá Kenwood en það var bara engin verslun með slíkt! Endað því á að kaupa mér Panasonic spilara í fríhöfninni. Var einn og hálfa dag í bænum eftir að ég kom heim. Keypti mér nýjar álfelgur undir bílinn ( þær einu sem til voru á höfuðborgasvæðinu í 15" undir Subaru), dekk og er nú komin á ný dekk og felgur en vantar ískyggilega einhvern til að tengja fyrir mig spilarann í bílinn og hátalarana svo ég geti farið að gellast. Það er svo hellingur að gerast hjá mér á næstunni, nenni ekki að segja frá því núna. Lét nokkrar myndir fljóta með úr ferðinni. Eg var svo sem minnst með myndavélina á lofti og á eftir að fá copys frá stelpunum. Ég týmdi nefninlega ekki að fara með nýju vélina með mér, enda sjálfsagt gefist fljótt upp á að dröslast með hana í búðir! Kveðja Dröfn