Saturday, September 20, 2008

Er barnið farið að drekka!


Nei nei hún er bara að halda á tómri dós!!

Það lýtur út fyrir að ég sé svona helgarbloggari. Það gerist ekkert nema um helgar. Það er svona þegar það er svo mikið að gera hjá mér. Ég er bæði á vöktum í vinnunni og svo er ég að læra á allt systemið og þar að leiðandi mikið niðri í búð utan vinnu. Það er marg sem fylgir þessu nýja starfi mínu en allt mjög áhugavert. Það er búið að vera svoldill gestagangur hér síðan um síðustu helgi. Alfa var hjá okkur frá föstudegi til þriðjudags.Þurfti reyndar að flýta fluginu sínu á þriðjudaginn vegna veðurs. Það var ömurlegt veður hér í síðustu viku. Það er búið að rigna eins og hellt úr fötu! Ég hélt kannski að það mundi duga til að bílinn minn yrði hreinn og fínn að utan en það dugði víst ekki til. Ég notaði því tækifærið í gær meðan það rigndi ekki og skellti mér í að þrífa hann utan sem innan. Ég hefði svo sannarlega getað verið á hlýrabolnum þar sem gula fíflið skein sínu skærasta en ég kunni nú ekki við það nágrannana vegna. Þrjóskaðist því við í flíspeysunni og hætti ekki fyrr en kagginn glansaði (eða svoleiðis). Guðrún Anna frænka átti afmæli í gær og ég kíkti til hennar eftir vinnu í gærkvöldi. Þar voru nokkrar skvísur samankomnar að úða í sig kræsingum. Ég stoppaði til að verða hálf eitt en þá var ég farin að geyspa svo mikið að ég kunni ekki við að láta þær horfa mikið lengur ofan í kokið á mér. Í dag er ég í fríi eða svo til. Fór með dósir úr búðinni og svo reikna ég með að taka bakvakt í kvöld ef þess þarf. Frí hjá mér er því eins og er ekki frí en þó það. Það var svo ömurlegt veður í morgun þegar ég vaknaði að ég sá ekki fram á að gera mikið af viti í dag, ekki utanhúss allavega. Ég var komin með þá grillu í hausinn að fara bara að taka til í geymslunni ( nú tístir sennilega í einhverjum) en ákvað að hlýfa öðrum á heimilinu við því. Mér finnst það snilldar not á tíma að taka til í geymslunni en ég er nú samt tiltölulega nýbúin að því. Ég býst því við að reyna að vinna eitthvað í tölvunni í dag í staðinn. Það er svo ótrúlega margt sem ég ætla að koma á tölvutækt form sem tilheyrir búðinni sem ekki hefur verið það hingað til. Mamma er svo ótölvuvædd að það er nánast ekkert gert í tölvu utan bókhalds. Það hefur ekki einu sinni verið nettenging í versluninni hingað til en það stendur til bóta. Líka nauðsynlegt upp á framtíðina svo við Helga getum gengið að bókhaldinu vísu þar en ekki hér í kjallaranum. Þetta kemur allt með tímanum. Það er hellingur sem þarf að gera og þarfnast skipulags og tíma. Þetta fer hægt af stað en við reynum að gera eitthvað smá annað slagið. Ég á nú kannski eftir að fara úteftir í dag og mála smá , alltaf þörf á því! Kannski í kvöld þá ætlar Helga að fá gistingu í gestaherberginu þar sem hennar hús er fullt af gestum sem eru komnir til að taka skúrk í húsinu hennar. Ef hún gistir þá getur vel verið að ég bjóði henni upp á hvítvín. Það hafa komið spurningar um það úti í bæ hvort við séum lessur! hehe gamall kall sem er að vinna hér sem var víst að spurja að því úti í bæ. Okkur finnst þetta nú bara fyndið. Við erum jú mjög mikið saman en bara sem vinkonur, svo það sé nú á hreinu!! Ég man ekki hvort ég var búin að segja frá því að við (ég,Helga, Íris og Ágústa) fórum á kvennaráðstefnu á Höfn síðasta þriðjudag. Þetta var fyrir konur í atvinnureksti og þetta var mjög skemmtilegt og nytsamlegt. Eftir þetta ákváðum við að vera svoldið grand á því og fórum á Humarhöfnina og fengum okkur að borða. Ég fékk mér humarsúpu í forrétt og svo humarpizzu í aðalrétt og hún var rosalega góð! ég mæli með því að allir drífi sig á Höfn og fari á Humarhöfnina svona áður en hún lokar, það lokar 1 október og er lokað fram á vor. Alls ekki dýr staður og hrikalega kósí bara. Við fórum alsælar og saddar heim eftir daginn. Jæja ætli ég fari ekki að bardúsa eitthvað sniðugt. Kveðja og góða helgi Drabban

p.s varð að láta þetta fylgja

Sunday, September 14, 2008

Helgarfrí!


Já þið segið! ekki er nú hægt að gefa mér háa einkun fyrir nýja innkomu á bloggið!
En þessi meðfylgjandi mynd sem ég skellti með mætti kalla Kokkur án klæða! fannst bara svo tilvalið að setja þessa mynd inn þar sem helgin hjá mér er búin að snúast um að borða eða svoleiðis. Alfa systir kom til okkar á föstudaginn. Við mæðgur sóttum hana á Egilsstaði á föstudaginn og ég notaði tækifærið og skellti mér í klippingu. Fór að vinna á föstudaginn klukkan 4, var búin um 11 og fór þá beint heim í smá stund en kíkti svo í Löngubúðina þar sem var boðið upp á osta og hvítvín
ég fékk mér eitt glas af hvítvíni og spjallaði við skvísurnar og fór svo heim. Fór í sund á laugardaginn, chillaði með múttu, Ölfu og Írisi þar sem ég var i fríi. Kíktum á afa sem er komin heim (eða á Helgarfell) eftir langa fjarveru vegna veikinda. Spiluðum Scrabble og höfðum það bara rosalega gott á laugardeginum. Í dag hefur svo sem ekki margt verið brasað nema bara haft það enn betra. Við erum búnar að borða rosa góðann mat og heimabakað brauð og svo að sjálfsögðu nammi. Fengum okkur smá hvítvín/rauðvín með matnum á laugardaginn. Alfa verður hér fram á þriðjudag, er að klára sumarfrí. Á þriðjudaginn er ég að fara á Höfn ásamt nokkurm gellum héðan og við erum að fara á eitthvað kvennaþing fyrir konur í atvinnurekstri sem mig hlakkar mikið til að fara á. Alveg nýtt fyrir mér að fara á eitthvað svona. Vonandi að þetta eigi eftir að koma að góðum notum. Annars er ekki mikið plan framundan hjá mér.. annað en vinna borða sofa. Sem er fínt. Jú jú ég hugsa líka um krílið mitt. Hún hefur nú yfirleitt alla athyglina sú dama, og oft meira en hún getur. Það getur verið erfitt fyrir okkur múttu stundum að reyna að tala saman án þess að hún sé að reyna að troða sér inn í samræðurnar. Það er víst svona þegar maður er eini krakkinn á heimilinu. Hún sagði nú við mig frekar skondið þegar við vorum á leiðinni upp á Egilsstaði á föstudaginn. Við vorum að keyra Skriðdalinn og íris segist vera svo þyrst og svöng ég rétti henni vatnsflösku og segi ,,fáðu þér vatn núna og svo færðu að borða þegar við komum". Hún svarar mjög fljótt,, nei mig lagar ekki í vatn. Mig langar svo í mjólk... úr brjóstunum á þér mamma!!". Ég sagði nú að það væri ekki hægt. Þá sagði hún jú jú við förum bara á sjoppuna og inn á klósett og læsum. svo sest þú á klósettið með mig í fanginu og gefur mér að drekka!. Ég útskýrði það því fyrir henni að ástæðan væri ekki sú að það væri ekki hægt í bílnum heldur væri engin mjólk í brjóstunum á mér. Mér fannst svoldið skondið að hún segði þetta þar sem hún hætti sjálf á brjósti þegar hún var 5 mánaða!. En svona hluti lætur hún óspart út úr sér. Gaman að þessu engu að síður! En jæja þetta var nú bara svona stutt ágrip af því sem ég hef verið að gera utan vinnu sem hefur verið flest kvöld síðustu tvær vikur! verð næstu tvær á fyrrpartsvöktum svo ég reyni.. ég endurtek reyni að vera dugleg að þvæla eitthvað hér inn. Lofa engu. Kveðja Drabban